Jólatréð mitt…

Þá styttist óðum í þrettándann og síðasta daga jóla sem að þessu sinni kemur upp á laugardag. Þá fer jólaksrautið niður á flestum heimilum, þ.e.a.s ef það er ekki nú þegar komið niður. Skrautið af jólatrénu fer á sinn stað og eftir stendur tréð, hálfnakið að manni finnst og hlutverki þess lokið….í hugum flestra.

Mér hefur alltaf þótt dálítið sorglegt að sjá jólatré fjúka um bæinn eftir jól ef fólk hefur ekki hirt um að fara með þau í endurvinnslu. Og ef ég fer svo í endurvinnsluna finnst mér líka mjög sorglegt að sjá þar heilu haugana af jólatrjám sem skreytt hafa heimili landsmann í nokkrar vikur, bara búið að henda þeim! En svona er hringrásin hjá okkur og eflaust skárri en plastjólatré sem hægt er að nota aftur og aftur og aftur…og sem gætu eflaust gengið í erfðir í marga mannsaldra.  Eða ég veit það ekki, hvort er betra? Allavega vangaveltur sem bíða betri tíma.

Hér höfum við verið með lifandi tré, eins og sagt er og undanfarin ár hafa stofnar jólatránna okkar hér á þessu heimili fengið önnur hlutverk eftir jólin. Greinar hafa verið fjarlægðar og stofnarnir fengið að þorna í rólegheitunum í skúrnum þangað til hægt var að vinna frekar úr þeim.  Núna fyrir jól voru tveir stofna sem biðu þess að fá önnur hlutverk.  Hlutverkið hafði svo sem verið skrifað töluvert áður en fyrri stofninn fór í þurrk og nú átti bara eftir að framkvæma.  Einn góðan veðurdag núna í nóvember fór Froskurinn því út með hjólsögina og stofnana og vatt sér í verkið sem var að sneiða stofnana niður í c.a. eins cm. sneiðar. Sneiðarnar skyldi svo gata og nota sem merkispjöld eða skraut á pakka. Ótrúlega skemmtilegt vitanlega þangað til mér tókst að brjóta verndarhlífina á söginni á einhverjum góðum kvisti. Eftir það var það bara skemmtilegt því það verður að viðurkennast að svona sagir geta alveg skotið manni skelk í bringu. Með öðrum orðum, ég var frekar smeyk við sögina eftir að hlífin fór af og fór því sérstaklega varlega.

Stórhættulegt en afar skemmtileg græja þessi hjólsög.  Þegar stofnarnir tveir voru komnir í 1 cm. þykkar sneiðar voru boruð í þau göt fyrir snærisspotta. Í framhaldinu voru sneiðarnar svo m.a. notaðar sem pakkaskraut. 

Áður höfðu einhverjir stofnar fengið að fara í hendur rennismiðs fjölskyldunnar sem gert hefur þó nokkrar jólakúlur úr trjástofnunum, m.a. þessa hér.  

Þessi jólin verður svipað uppá teningnum, þ.e. stofninn fær að þorna í rólegheitum en svo verður eitthvað skemmtilegt gert úr honum síðar.

Það væri gaman að heyra frá þér